Lög félagsins

1. grein. Um félagið

Nafn félagsins er Skógarkonur. Félagið er sjálfstætt og óháð félag. Aðsetur og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein. Markmið

Markmið félagsins er þátttaka kvenna á öllum aldri innan allra sviða skógræktar, með áherslu á samheldni og samvinnu. Þessu verði náð með því að:
• Auka þátttöku kvenna í skógrækt, sem skógareigenda, starfsmanna, rannsakanda eða áhugamanneskju um skógrækt.
• Marka konum sess innan skógræktar.
• Vinna með almenningi, hinu opinbera og stofnunum, bæði innan skógræktar og utan hennar, að því að mál er lúta að konum og skógrækt séu sett á dagskrá.
• Vera tengslanet kvenna innan skógræktar.

3. grein. Aðild

Félagið er opið öllum sem áhuga hafa á skógrækt, en er sérstaklega miðað að konum.
Til að ganga í eða úr félaginu skal senda stjórn félagsins skriflega beiðni þar að lútandi.
Félagar teljast þeir sem hafa skráð sig í félagið og greitt félagsgjald. Skuldi almennur félagsmaður tvenn árgjöld er heimilt að strika hann af félagaskrá. Stjórn félagsins getur vikið félagsmanni úr félaginu ef hann hefur brotið lög félagsins eða með öðrum hætti sýnt af sér háttsemi sem er andstæð hagsmunum félagsins. Áður en tekin er ákvörðun um brottvísun skal gefa félagsmanni kost á að veita andsvör um hina fyrirhuguðu ákvörðun. Ofangreind samskipti skulu vera skrifleg. Félagsmaður getur krafist félagsfundar til að bera ákvörðun stjórnar um brottvikningu hans undir fundinn.

4. grein. Aðalfundur

Aðalfundur félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn árlega fyrir fyrsta nóvember. Boða skal til fundar með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta og telst hann þá löglegur. Aukaaðalfund skal halda, ef stjórn félagsins þykir ástæða til eða 1/5 félaga óska þess.
Í fundarboði skal getið þeirra mála sem vitað er að lögð verða fyrir fundinn, auk hefðbundinna aðalfundarstarfa:
• Kosning fundarstjóra og fundarritara.
• Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári kynnt og rædd.
• Lagðir fram endurskoðaðir reikningar til samþykktar. Reikningar miðast við almanaksár.
• Mögulegar lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar.
• Hugsanlegar ályktanir/tillögur kynntar, ræddar og afgreiddar.
• Kosningar samkvæmt lögum félagsins.
• Önnur mál, sem upp kunna að verða borin.
Tillögur að lagabreytingum skulu sendar félagsmönnum í tölvupósti a.m.k. viku fyrir aðalfund.
Á aðalfundi hafa skuldlausir félagar atkvæðisrétt. Aðalfundur ákveður félagsgjaldið. Afl atkvæða (einfaldur meirihluti) ræður úrslitum mála á aðalfundi, annarra en lagabreytinga og niðurlags félags. Ef atkvæði falla jöfn skal hlutkesti ráða.
Aðalfundur kýs heiðursfélaga eftir tillögu stjórnarinnar.
Aðalfundur kýs einn skoðunarmann ársreikninga fyrir eitt ár í senn og einn skoðunarmann til vara

5. grein. Stjórn

Stjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda, sér um að framfylgja samþykktum aðalfundar og að bera ábyrgð á fjárreiðum félagsins.
Stjórn félagsins skipa formaður, gjaldkeri og ritari. Einnig skal kosinn einn varamaður. Stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn og skiptir stjórn með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Árlega eru kosnir 2 stjórnarmenn og varamaður, eða 1 stjórnarmaður og varamaður, eftir því sem við á. Hver stjórnarmaður sitji að hámarki 4 kjörtímabil í senn.
Formaður skal boða stjórnarfundi með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.
Komi upp sú staða að stjórnarmeðlimur hætti skal varamaður taka hans sess í stjórn félagsins.

6. grein. Lagabreytingar og slit félags

Lögum þessum verður eigi breytt nema á aðalfundi og þarf til þess 2/3 atkvæða fulltrúa á fundinum, enda hafi breytingartillögurnar borist stjórn á tilskildum tíma fyrir aðalfund.
Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún lögð fyrir aðalfund og þarf hún samþykki 2/3 félagsmanna. Ef ekki næst mæting 2/3 félagsmanna á fundinum er haldinn framhaldsaðalfundur og ræður þá afl atkvæða (einfaldur meirihluti) niðurstöðu.
Við félagsslit skal skipa þrjá fulltrúa í sérstaka skilanefnd og er formaður félagsins jafnframt formaður skilanefndar. Fjármunir félagsins skulu renna til samtaka í þágu kvenna samkvæmt ákvörðun stjórnar og önnur gögn til Þjóðskjalasafns.


Samþykkt á aðalfundi félagsins í Reykjavík 14. nóvember 2024.